Akrar

 

Hrekkjalómar

33 Hrekkjalómar

Pabbi, Laugi litli á Dagverðará, var dálítið hrekkjóttur og stríðinn. Einu sinni rugluðu þeir strákarnir öllum hrútunum á Stapa, en þá voru hrútarnir hafðir í sér hrútakofum, og þegar fólkið kom í kofana um morguninn voru allt aðrir hrútar þar.

Eitt sinn fóru þeir líka inn á Stapa og stífluðu strompinn á Bjargi þannig að húsið fylltist af reyk og varð að flýja út.

Þeir fóru líka einu sinni inn í vörugeymsluna hans Jóns á Stapa, sem var afi Nonna Tryggva og rak kaupfélag á Stapa, - stálu þaðan súkkulaði og fleiru og átu á sig gat. Svo á heimleiðinni urðu þeir fárveikir af niðurgangi og ætluðu aldrei að komast heim.

Krakkarnir í Breiðuvíkurhreppi voru í skóla hjá manni sem hét Haraldur og var pabbi Hallsteins í Gröf. Haraldur var dálítið strangur og pabbi og krakkarnir dálítið óþekk og hrekktu Harald oft. Einu sinni var hann staddur með þeim á túninu á Laugarbrekku. Þar var rotþró, og er enn, sem safnað var í því sem kom frá heimilisfólkinu á Laugarbrekku. Krakkarnir náðu að láta Harald vera þar sem þau gátu opnað fyrir þróna þannig að allt gossaði á Harald.

Pabbi var elstur bræðranna á Dagverðará en Dóri litli yngstur. Þeir voru alltaf að síga í björg til að ná í egg. Og af því að Dóri var yngstur, var hann látinn vera uppi á bakkanum og halda í spottann en pössuðu að hann væri nógu innarlega á bakkanum þannig að það tæki fyrir hann nokkurn tíma að dragast fram af þegar þeir eldri héngu í spottanum. Svo pössuðu þeir að vera komnir upp aftur áður en Dóri litli dróst fram af. Og það tókst víst alltaf.

Eitt sinn rak tundurdufl á Dagverðará. Að sjálfsögðu skrúfuðu pabbi og bræðurnir það í sundur og skriðu beinustu leið inn í það. Það sprakk víst ekki! (Sögn Ólínu Gunnlaugsdóttur, Ökrum)

 

Loftsteinshola við Háahraun

34.loftst.hola

Við enda Háahrauns, þar sem þjóðgarðurinn byrjar, er hola í hraunið rétt norðan við þjóðveginn. Hún fannst í kringum 1980 í smalamennskum. Fyrst var talið að Nonni Tryggva á Stapa, hefði verið að fikta með dýnamít en Gunnlaugur á Ökrum fékk einhverja fræðinga úr Reykjavík til að koma og kíkja á holuna og töldu þeir að þarna hefði fallið loftsteinn. En hann væri svo pínulítill að erfitt yrði að finna hann. Í kringum holuna var greinilegt að grjót sem hafði splundrast upp úr henni, hafði brennt sig niður í mosann og er hægt að sjá þetta ennþá. (Sögn Ólínu Gunnlaugsdóttur, Ökrum)

 

© Lýsuhólsskóli 2014