Axlar – Björn
Niður undan Axlarhólum þar sem þrengst er milli þeirra og Búðarhrauns eru rústir af Fornöxl, þar sem Axlar-Björn, frægasti morðingi á Íslandi, bjó, en hann var tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi árið 1596. Björn ólst upp á Knerri hjá Ormi ríka og var dulur og fálátur löngum, en þótti harðdægur, ef því er að skipta. Eitt sinn dreymdi hann að til hans kæmi stórvaxinn maður með síðan hatt svo að lítið sást í andlit hans, maðurinn spurði hvort hann vildi eiga við sig kaup og gerast sinn maður. Þegar Björn var fús til þess sagði maðurinn að hann skyldi ganga til fjalls í gil það, er hann vísaði til og þar myndi hann finna öxi undir stein, og hann ætti alltaf að hafa hana á sér, þá myndi hann eigi fé skorta. Fann hann öxina þar sem maðurinn hafði sagt að hún væri. Þegar þetta gerðist var hann til sjóróðra á Búðum.
Fyrsta verk hans með öxinni var að höggva sundur hvolpafulla tík og þótti það eigi spá góðu um það, sem eftir kæmi. Björn hóf búskap í Öxl, sem var lítið eyðikot og giftist vinnukonu frá Knerri, Þórdísi Ólafsdóttur að nafni. Brátt fór að berast slúður í nágrenninu um framferði Björns, horfið höfðu menn, einn eða fleiri, og eitthvað var rætt um grunsamlega hestaeign Björns. Eitt sinn komu að Knerri systkini tvö, sveinn og mær á tvítugsaldri, og báðu um gistingu. Kona Björns fylgdi þeim til baðstofu, lét þau fara út blautu fötunum, setjast upp í rúm og þeim var gefinn matur. Kerling ein sat þar í baðstofunni, er barn hafði með höndum, og kvað hún jafnan fyrir munni sér kveðu þessa:
Enginn skyldi Gunnbjörn gista,
er klæðin hefur gó(ð).
svíkur hann alla sína gesti
og korríró.
Björn var ekki inni um kvöldið. Hann sat frammi í skála. Þegar systkinin höfðu matast spurði kona Björns sveininn hvort hann vildi ekki fara til Bjarnar svona til skemmtunar. Honum leist vel á það og fór til Bjarnar, systir hans var eftir inni. Eftir litla stund heyrðist væl og kjökur fram í bænum og varð þá stelpan hrædd en kona Bjarnar sagði henni að vera ekki hrædd, þetta væri bara Björn að gera að gamni sínu. En síðan heyrðu þær annað hljóð mjög aumkunarvert. Þá stóðst mærin ekki lengur og hljóp ofan. Er hún kom gegnt skáladyrum, sér hún bróður sinn liggja dáinn við skálaþröskuldinn, en blóðtjörn þar í ganginum. Hleypur hún þá út og felur sig upp á bita í hesthúsi Bjarnar. Eftir smá stund kom Björn og leitar hennar en finnur hana ekki. Hleypur hún þá í hraunið og felur sig. Síðan kemst hún að Hraunlöndum, þar segir hún frá því sem gerst hafði og vísar fólkið henni þar á Ingimund hreppstjóra á Hellnum.
Um páskaleytið 1596 var Björn handtekinn ásamt Þórdísi konu sinni sem þá var ólétt. Hann játaði á sig níu morð en hann er sakaður um allt að átján. Björn var færður til aftöku á Laugarbrekku. Hann varð karlmannlega við dauða sínum. Fyrst voru útlimir hans brotnir, síðan var hann afhöfðaður og hlutaður og hlutirnir festir á stengur.
Axlar-Björn var dysjaður í þrem dysjum á Laugarholtinu. Ein fór undir veginn þegar hann var lagður niður að Hellnum, önnur fór sennilega í námugreftri á svipuðum stað en ein er eftir rétt vestan við veginn niður að Hellnum, þar sem farið er yfir grindarhlið núna. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti íslands, var afkomandi Axlar-Bjarnar en Axlar-Björn eignaðist, meðal annarra, soninn Svein skotta, ,,sem flakkaði víða um land og flekaði konur“, að því er sagt er.
Sveinn fór víða um land eftir að hann komst á legg, bæði stelandi og strjúkandi, gat börn víða og þótti djarftækur til kvenna; nálega var hann kunnur að illu einu, en enginn var hann hugmaður eða þrekmaður. Bæði var hann hýddur norður í Þingeyjarsýslu fyrir stuld og aðra óknytti og aftur á alþingi 1646 var honum dæmd hýðing fyrir sömu sakir svo mikil sem hann mætti af bera og þar með skyldi hann missa annað eyrað.
Sveinn skotti var hengdur í Rauðuskörðum 1648 fyrir glæpi þá er honum voru eignaðir.