Nautið á Stóra-Kambi
Þegar Georg Ásmundsson bjó í Miðhúsum og
Indriði Sveinsson á Stóra-Kambi voru þeir eitt sinn að fara með naut til
slátrunar á Arnarstapa. Georg fór heiman frá sér með nokkra kálfa, en Indriði
ætlaði með naut. Þeir ætluðu að vera í samfloti svo Georg kemur við á
Stóra-Kambi. Er hann kemur í fjósdyrnar er nautið laust og lætur ógurlega.
Georg grípur í miðnesið á því um leið og boli kemur út og hélt þannig í hann út
á Grafarholt. Þá var boli hættur að brjótast um og var orðinn ljúfur sem lamb
leitt til slátrunar.
Segir ekki meir af því ferðalagi.
Stóri Kambur
Víðsýnt er á Stóra og Litla Kambi enda hafa þar búið miklir höfðingjar. Þeirra frægastur er Björn Ásbrandsson Breiðvíkingakappi. Í Eyrbyggju segir frá tíðum ferðum hans yfir Kambsheiði, sem nú heitir Kambsskarð, til fundar við Þuríði húsfreyju á Fróðá, systur Snorra goða, en hún var þá gift Þóroddi skattkaupanda, sem hafði bæði skömm og skapraun af þessum ferðum Bjarnar, því það var alþýðumál að hann fíflaði Þuríði. Við Björn var sagt um Kjartan son Þuríðar, að hann væri sonur þeirra Þórodds „allra saman“, og lét Björn vel yfir. Eitt sinn, er Björn var á heimleið, gerði Þóroddur honum fyrirsát við Digramúla upp af Fróðá og voru fimm saman. Kom Björn blóðugur mjög heim af þeim fundi. Í annað sinn keypti Þóroddur af Þorgrímu galdrakinn, að hún gerði hríðviðri að Birni, er hann færi heiðina. Í hríð þeirri villtist hann og lá úti þrjú dægur í helli eins og síðar verður getið, áður upp létti og hann komst heim þrekaður mjög. Loks bar Þóroddur vandræði sín upp við Snorra goða í heimboði að Fróðá, því hann taldi hann líklegastan til að rétta hlut sinn. Snorri reið þá suður Kambsheiði við níunda mann og sagðist ætla til skips í Hraunhafnarósi. En á heiðinni sagði hann mönnum sínum, að nú myndi hann ríða ofan að Kambi og taka Björn af lífi, ef færi gæfist. Þetta var á góðum þerridegi á túnslætti og taldi Snorri því von til, að Björn væri úti, því ekki fannst honum vænlegt að þurfa að sækja afarmenni slíkt í hús inn. Tilnefndi hann mann í liði sínu, sem vega skyldi að Birni, en gangs væri von af frekum úlfi, ef hann hlyti ekki skjótan bana. Er þeir riðu ofan af heiðinni að bænum sáu þeir, að Björn var einn úti á túnvelli og smíðaði vögur, en það var sleði til að aka saman þurru heyi. Hafði hann ekkert vopn nema litla öxi og tálguhníf með spannarlöngu blaði. Snorri reið fyrstur og var í blárri kápu. Varð það fangaráð Bjarnar, er þeir Snorri fundust, að hann tók annarri hendi í kápuermi hans, en með hinni hélt hann á hnífnum í krepptum hnefa þétt við brjóst Snorra þannig að hann gæti rekið hann í gegn, ef honum sýndist það ráð. Manni þeim, er vega átti að Birni, féllust hendur, er hann sá, að lífi Snorra var mikil hætta búin, ef hann sýndi nokkurn ófrið. Gekk Björn á leið með þeim og spurði almæltra tíðinda, en hélt þeim tökum á Snorra, sem hann hafði náð í upphafi. Varð Snorri að heita honum griðum, en vildi þó, að Björn hætti að glepja Þuríði systur sína. Því kvaðst Björn ekki geta lofað, ef þau Þuríður yrði áfram í sama héraði, en hét Snorra því, að þeir Þóroddur skyldu ekki hafa skapraun af fundum þeirra Þuríðar næsta vetur. Litlu síðar tók hann sér far með skipi úr Hraunhöfn. Urðu þeir heldur síðbúnir og hrepptu mikla landnyrðinga og spurðist ekki til þess skips síðan langan tíma.
Löngu síðar ætlaði Guðleifur kaupmaður úr Straumfirði á sunnanverðu Snæfellsnesi að sigla skipi sínu úr Dýflinni til Íslands vestan Írlands. Hann fékk austanveður og landnyrðinga og rak þá langt vestur um haf og í útsuður, svo að þeir vissu ekki til landa. Loks var þá að miklu landi, sem þeir þekktu eigi og var illt til hafna. Dreif þar að þeim fjölda manns. Engan þekktu þeir, en þótti helst sem þeir mæltu á írsku. Voru þeir teknir höndum og skildu þeir, að sumir vildu drepa þá, en aðrir hneppa í ánauð. Á meðan þráttað var um þetta, reið þar flokkur manna. Var þar í höfðingi mikill, sem allir lutu þegar í stað. Var hann garpslegur, en þó mjög kominn á efri ár og hvítur fyrir hærum. Hann mælti á norrænu til þeirra Guðleifs og spurði mjög um höfðingja á Íslandi, einkum um Snorra goða og Þuríði systur hans, en mest þó um sveininn Kjartan, sem þá var bóndi á Fróðá. Fyrir tilstilli þessa manns fengu þeir Guðleifur að fara frjálsir ferða sinna, en að skilnaði tók maður þessi gullhring af hendi sér og gott sverð og fékk Guðleifi og bað hann að færa sverðið Kjartani en hringinn Þuríði móður hans, ef honum yrði auðið að komast aftur til ættjarðar sinnar. Skyldi hann segja, ef hann yrði spurður, hver sendi þessa gripi, að það væri sá, er meiri var vinur húsfreyjunnar á Fróðá en goðans á Helgafelli, bróður hennar. Hafa menn fyrir satt, að maður þessi hafi verið Björn Breiðvíkingakappi, þótt engin séu sannindin. Um ferðir Bjarnar yfir heiðina kvað Jónas Hallgrímsson löngu síðar þessa skemmtilegu dróttkveðnu vísu, sem er bæði með fornum og nýstárlegum kenningum. Konan er þar nefnd, „styttubands storð“ og „fannamundargrund“, en karlmaðurinn „stýrir priks“.
Hingað gekk hetjan unga
heiðar um brattar leiðir,
fanna mundar að finna
fríða grund í hríð stundum.
Nú ræðst enginn á engi,
í ástarbáli fyrr sálast,
styttubands storð að hitta,
stýrir priks yfir mýri.