Knörr


Knarrarklettarnir

17. Knarrarklettar

Knarrarklettarnir eru þverhnípt björg, þar sem engum er fært að fara um nema fuglinum fljúgandi. Fram af þeim hafa margir hrapað er þeir hafa villst af leið á Fróðárheiði, en reimleikum er oft um kennt. Talið er að ekki færri en 18 karlar og konur hafi hrapað þar til bana.

Í október 1874 voru nokkrir menn á leið ríðandi suður Fróðárheiði og lentu í rigningu og niðamyrkri. Einn þeirra, sem reið mjög viljugum góðhesti, varð viðskila við félaga sína og fundu þeir hann eigi. Daginn eftir fannst hestur mannsins standandi fremst á Knarrarklettum með slitinn beislistaum, en fyrir neðan klettana fannst lík mannsins, sundurtætt og brotið, með spottann af beislistaumnum í höndunum. Þótti sýnt, að hann hefði ætlað að teyma hestinn og ekki séð í myrkrinu hvað var framundan, en hesturinn skynjaði hættuna og spyrnt á móti og þar skilið með þeim.

Vitað er um einn mann sem lifað hefur af fallið fram af klettunum. Hann var á leið yfir Fróðárheiði í blindhríð og mikill ófærð. Vissi hann eigi fyrr til en hann hrapaði, en stöðvaðist brátt í snjódyngju. Þótti honum ráðlegast að hreyfa sig alls ekki, fyrr en rofaði til, og sá hann þá, að hann var staddur á syllu í miðjum klettunum og hengiflug fyrir neðan og ofan, en tóarlausir hamraveggir á báðar hendur. Þóttist hann vita, að djúpur snjór mundi vera undir klettunum og eina lífsvonin væri að stökkva og treysta því, að hann lenti í skafli en ekki stórgrýti. Fallhæðin var mikil og varð honum það til lífs, að hann var í mikilli og víðri úlpu, sem reyndist honum fallhlíf, þegar loftið þandi hana út. Lenti hann í mjúkum og djúpum snjó, þar sem hann fór á bólakaf, en hjálparlaust komst hann loks til næsta bæjar.


Oddný Píla

20 Oddný píla

Þegar Latínu-Bjarni (1709 – 1791) var prestur á Knerri í Breiðuvík, vöktu nokkrir strákar á Hellnum upp unglingsstelpu sem var kölluð Oddný Píla. Réðu þeir síðan ekki við hana og fengu Bjarna til að kveða hana niður og gerði hann það í fjörunni á Hellnum. En þá neituðu strákar að borga Bjarna það sem hann hafði sett upp og vakti hann þá Oddný upp aftur. Þá drap hún skepnur og skaðaði fólk þannig að Hellnarar neyddust til að biðja Latínu-Bjarna að kveða hana niður aftur. Síðan kvað hann Oddný Pílu niður í gjótu í Hellnahrauni, við götuna milli Hellna og Stapa og kallast hún síðan Draugalág (Oddnýjargjóta). Oddnýjartóft er síðan upp við Lindina á Hellnum en þar átti Oddný að hafa búið í lifandi lífi.

                                                              

                                                                                         Sviptivindarnir á Knerri

19 Sviptivindar á Knerri

Eitt sinn kom strákur úr Staðarsveit að Knerri. Fara hann og bóndinn út á hlað og eru að ræða rokið sem hafði verið daginn áður. Strákurinn sagði að það hefði verið svo mikið rok að nýhlaðinn veggur hafi fokið um koll. Þá sagði bóndinn að það væri sko ekki neitt. Hann hefði verið að leiða belju út á hlaði og þegar hann kom fyrir húsgaflinn hafi komið svo ógurleg hviða að hausinn hafi fokið af beljunni og á hana aftur í næstu hviðu.

 

© Lýsuhólsskóli 2014