Torfár-Kolla
Í Bárðarsögu er getið um óvætti, sem hét Torfár-Kolla eða Skinnhúfa öðru nafni og átti heima á Hnausum. Hún gerði margt illt bæði í stuldum og manndrápum. Ekki er ólíklegt, að hún hafi fengið fyrra nafnið af þeim sökum, að hún hafði setið fyrir mönnum við Torfá og steypt þeim fram af brúninni niður í ólgustraum Grafaróss, enda má segja, að Torfá hafi þarna verið farin á tæpasta vaði og Torfár-Kollu þá auðvitað kennt um, ef illa fór. Þess er getið í annálum, að þarna hafi orðið slys. Árið 1764 hrapaði Vigfús Jónsson í Bergþórsbúð á Stapa ofan fyrir klettana við Torfá í hríðarbyl, er hann var á heimleið frá Knarrarkirkju. En þau urðu hins vegar endalok Torfár-Kollu, eftir því sem sagan segir, að Þórir á Öxnakeldu á Hellnum fann hana í fé sínu um nótt. Þau réðust þegar á og glímdu. Varð þeirra atgangur bæði harður og langur, en lauk með því, að Þórir braut í henni hrygginn og gekk svo af henni dauðri. Var talið, að hann hefði heitið á Bárð Snæfellsás sér til fulltingis í þeirri raun, því að menn höfðu hann fyrir heitguð þar á nesinu, eftir að hann hvarf í Jökulinn.