Álftavatn

Í Braga býr huldufólk og eru af því margar sögur. Bragi Jónsson skráir eftirfarandi sögu í Refskinnu 1 (1971;bls 89-92), hér í stuttri endursögn Ragnhildar Sigurðardóttur frá Álftavatni: Fyrir vestan og neðan túnið á Álftavatni stendur hár grjóthóll, grasi vaxinn, sem heitir Bragi. Fyrir ævalöngu bjuggu ung hjón á Álftavatni, þau áttu nokkur börn. Við Braga áttu börnin fallegt bú og léku þau sér þar oft. Eina nóttina dreymdi húsfreyju að álfkona kæmi til sín í svefni og bað hana að biðja börnin sín að hætta að leika sér við bústað hennar, þ.e. grasivaxna hólinn Braga, það kæmi alltaf rusl ofan í mjólkurtrogin hennar eftir leiki barnanna. Húsfreyja bannaði eftir þetta börnum sínum að leika sér á Braga. Nokkru seinna vitjar huldumaður húsfreyju í draumi og biður hana að aðstoða konu sína sem var að fæða barn. Húsfreyja fylgir huldumanninum að Braga, hjálpar konu hans að eignast barnið og fer svo heim að sofa. Þegar hún vaknar sér hún að skórnir hennar eru enn snjóugir til marks um næturferðalagið.  Álfkonan, sem var sú sama og áður hafði vitjað húsfreyju í draumi,  sagðist ekki geta launað svo mikinn greiða en mælti fyrir um að húsfreyja og niðjar hennar yrðu gæfufólk og gaf henni fallegan klút sem varð ættargripur.

Eins er til  frásögn frá því um miðja nítjándu öld um það hvernig bóndinn á Álftavatni bjargaðist með allt sitt fé úr norðan byl (eins og stundum gerir hér) með því að hafa nætursetu á Braga (frásögn Björns Jónssonar á Álftavatni 1958. Skráð í Refskinnu 1, Bragi Jónsson (1971;bls 89-92).).

3 Hóllinn Bragi

 

Hóllinn Bragi

Hóllinn Bragi er á túninu á Álftavatni. Það er sagt að í honum sé huldufólk og því hefur hann aldrei verið sleginn.

 


© Lýsuhólsskóli 2014