Álagablettur á Ölkeldu
Milli Ölkeldu og Foss í Staðarsveit rennur á
sem heitir Litla Fura. Bæirnir standa á bökkum árinnar og er stutt á milli
þeirra. Meðfram ánni, beggja megin, er grösugur hvammur, og eru klettar fyrir
ofan hann, sem talið er að séu bústaðir álfa. Frá ómunatíð hefur það verið trú,
að ekki megi slá hvamminn, enda er hann ekki svo stór, að eftir miklu sé að
slægjast og hefur það því ekki verið gert. Áin deilir löndum milli jarðanna,
sem eiga því báðar hvamminn, sitthvoru megin, en túnin liggja fast að honum. Væri
hvammurinn sleginn átti kýr eða annar stórgripur að drepast á þeim bæ. Auðvitað
er farið eftir þessu, en á þeim 53 árum, sem Gísli Þórðarson hefur búið á
Ölkeldu, hefur þó komið fyrir tvisvar sinnum að hvammurinn hefur verið sleginn.
Í fyrra skiptið var hvammurinn
sleginn frá Ölkeldu, og vildi það þannig til að vinnumaður sem flust hafði
þangað um vorið, sló hann um morgunstund þegar hann var að slá túnið suður
undir hvamminum. Þegar Jófríður, systir Gísla bónda, kemur út í teig að raka og
sér að hvammurinn er sleginn, biður hún Guð að hjálpa sér, og það fékk líka
mjög á sláttumanninn , sem ekkert hafði vitað um álögin. Var nú rætt um, hvað
gera skyldi við heyið úr hvamminum og minnir Gísla helst að það hafi ekki verið
hirt, heldur látið grotna þar niður.
Líður svo framundir jól. Gísli hafði tvær kýr í fjósi, en þá veiktist önnur,
betri kýrin, af einkennilegum sjúkdómi, sem ekki varð við ráðið og endaði með
því, að hún drapst rétt fyrir jólin.
Mörgum árum seinna urðu svo
ábúendaskipti á Fossi, og kom þangað bóndi sem var vantrúaður á þessi álög og
taldi þau ekki hafa við nein rök að styðjast. Sló hann því hvamminn fyrsta
sumarið sem hann var þar, með fullkomnum ásetningi - og hæddist að álögunum -
og hirti töðuna. Fram eftir vetri gekk allt vel, og fór bóndinn nú að hælast
um, að ekkert mark væri á þessum gömlu ummælum takandi, og kýrnar þrjár í
fjósinu fóðruðust ágætlega. En
svo, rétt fyrir sumarmál, veiktist ein kýrin og drapst á skömmum tíma. En um
vorið, eftir að farið var að hleypa kúnum út, drapst önnur kýrin í litlum
pytti, svo nálægt bænum að með ólíkindum þótti, að ekki var tekið eftir því
fyrr en kýrin var dauð.
Síðan hefur hvammurinn fengið að
vera í friði og ekki slegið þar strá.
Einnig hefur verið sagt frá því að eitt sinn á dögum Guðmundar biskups góða hafi barn horfið frá Fossi og fannst það hvergi hvar sem leitað var. Þegar barnið hafði verið týnt í nokkra daga var Guðmundur góði þar á ferð og var leitað til hans um hjálp við að finna það. Gekk þá biskupinn að hvamminum og bjó sig undir að syngja messu. Þegar hann hóf messusönginn sprakk klettur í hvamminum í tvennt , og út um sprunguna kom barnið heilt og óskaddað. Sést sprungan enn þann dag í dag í klettinum.
Barnshvarf á Ölkeldu á 18. öld
Þórður bóndi í Ölkeldu í Staðarsveit eignaðist barn með konu sinni, sem Guðlaug hét. Snemma á fyrsta ári þess hvarf það úr vöggunni og fanst hvergi þó leitað væri. Var farið til þess fornfróða og fjölkunnuga manns Þormóðar í Gvendareyjum, og hann beðinn að komast að því hvar barnið væri niðurkomið, hann sagði að lítið yrði unnið við það, þar sem það mundi verða foreldrunum til mæðu einnar. En þau vildu ná barninu aftur, hann kom með barnið undan fossinum á Litlu-Furá. Það varð fífl og gekk nakið þá er það lá ekki í bóli sínu. Þannig lifði það til á 20. ári að það dó.
http://sagnagrunnur.razorch.com/index.php?target=myth&id=9389