Galdra Loftur
Hin kunna þjóðsaga um Galdra Loft endar á Staðastað og Tröðum. Þegar Loftur var orðinn nær sturlaður tók hann að mæla fyrir munni sér: „Sunnudaginn í miðföstu verð ég í helvíti og kvölunum“. Þá var honum ráðlagt að flýja til prests á Staðastað, sem var aldraður, trúmaður mikill og klerkur hinn besti. Lét prestur Loft aldrei við sig skilja nótt né dag, úti eða inni. Eitt sinn er Loftur lá sjúkur þurfti prestur af bæ til að þjónusta dauðvona vin sinn. Þegar prestur var farinn hresstist Loftur brátt og gekk niður að Tröðum. Þar bjó aldurhniginn bóndi, heldur óþokkasæll, sem var hættur að róa. Fékk Loftur hann til að hvolfa upp litlum báti og róa út fyrir landsteinana og renna færi sér til skemmtunar. Logn hélst allan daginn en til bátsins hefur aldrei spurst síðan. Maður þóttist sjá það af landi að grá hönd og loðin hefði komið upp úr sjónum, tekið um skutinn þar sem Loftur sat og dregið svo allt í kaf.