Gullkista á Kirkjuhóli
Uppi á Kirkjuhóli hjá samnefndum bæ er stór steinn eða klettur og fast hjá honum er allstór gryfja. Sagt er að eitt sinn hafi steinninn legið yfir gryfjunni, en þarna á að vera grafin málmkista full af gullpeningum. Einhverju sinni ætluðu tveir menn að grafa upp kistuna. Gátu þeir við illan leik fest reipi í hringi, sem voru sinn á hvorum enda hennar. Tókst þeim með miklum erfiðismunum að tosa öðrum enda kistunnar nær því upp á grafarbarminn. Fór þá annar niður í gröfina til að lyfta undir. Segir þá sá sem uppi var: ,,Hún kemst upp, ef guð lofar´´. Gellur þá sá við, er í gröfinni var: ,, Hún skal upp hvort sem guð vill eða ekki´´. Í því losnaði hringurinn og kistan féll niður og drap þann, sem undir var. Síðan hefur ekki verið reynt að grafa upp gullkistu þessa, en hringurinn, sem slitnaði af henni við óhappið, komst í eigu Staðarstaðarkirkju og var notaður þar sem handfang á útihurð. Í Jarðabókinni frá 1714 segir að menn telji að á Kirkjuhóli hafi kirkja verið til forna og sjáist ennþá leifar tóftabrotins.
Risinn í Fúluvík
Örskammt sunnan við Kirkjuhól í Staðarsveit er vík er Fúlavík heitir, hafa sumir þóst þar kvikinda varir eftir að húma tekur. Þorgils hreppstjóri Guðmundsson bjó á Ytri-Görðum á síðari hluta 19. aldar, hjá honum var vinnumaður eigi nafngreindur, fór sá oft suður í Tungupláss á kvöldum. Eitt kvöld seint kom hann heim með ofsahlaupi og æði miklu, skellti dyrum í lás og kastaði sér í rúm sitt. í sömun andrá var höggi lostið í bæjardyrahurðina að brakaði í hverju tré. Gaf vinnumaður þá skýringu að þegar hann hefði verið milli Hofgarða og Ytri-Garða sá hann að risi mikill kom frá Fúluvík og veitti honum eftirför, vildi til að bæjardyrnar voru opnar svo hann fétt naumlega forðað sér inn og lokað, því risinn var þá kominn á hæla honum.
http://sagnagrunnur.razorch.com/index.php?target=myth&id=4814