Miðhús

Knarrarplássið og Miðhús

18 Knarrarplássið og Miðhús

Allnokkurn spöl vestan við Axlarhóla er svo nefnt Knarrarpláss, þar standa þrír bæir í röð undir hinum hrikalegu Knarrarklettum. Austast er Knörr, þá Syðri- og Ytri-Knarrartunga.  Næsti bær við Knarrarplássið  er Húsanes. Til 1951 stóð bærinn á tagli úr Búðarhrauni milli Miðhúsavatns og Hraunlækjar. Þarna niðri við Miðhúsavatn í vesturjaðri Búðarhrauns voru áður fyrr þrír bæir, en nú er aðeins Miðhús í byggð. Austast var bærinn Hraunlönd, sem fór í eyði 1885. Þar var eitt sinn bænahús en sumir segja að þar hafi verið alkirkja.

Eitt sinn drukknuðu átján kirkjugestir þegar þeir ætluðu að fara yfir Miðhúsavatn. Þá var kirkjan lögð niður og flutt að Knerri. Þar var kirkjan til 1879. Engin merki eru um kirkjuna en í Jarðabókinni 1707 segir að þar sjáist enn gamlar graftarleifar af mannabeinum.

Sagt er að ef fiskur er veiddur í vötnunum, sem eru meðfram jaðri Búðarhrauns, muni brenna á einhverjum af bæjunum þremur í Knarrarplássinu.

© Lýsuhólsskóli 2014