Bilun

Heimasíðan hefur verið óvirk (biluð) í nokkrar vikur og því ekki hægt að nota hana til fréttaflutnings.

Ýmislegt hefur gerst og fyrst er að telja aftakaveður þann 5. nóvember þar sem styrkur jafnaðarvinds var á bilinu 32-40 m/sek allan sólarhringinn, hviður yfir 60m/sek  og við komumst ekki í skólann. Vötn fuku í frosti og brúin á lóninu okkar tók á sig aðra mynd. Einnig breyttist umhverfi sundlaugarinnar nokkuð.

Þann 15. nóvember fór unglingadeildin á æskulýðsball í Borgarnesi með félagsmiðstöðinni Afdrepi. Það var hin besta skemmtun.

Daginn eftir, á degi íslenskrar tungu, tók deildarstjórinn sig til um morguninn, í myrkri, og þuldi draugakvæði og söng vögguvísur yfir grútsyfjuðum 8.-10. bekk sem mátti loka augum á meðan. Síðan komu nemendur í  5. og 6. bekk í unglingadeildina og fluttu ljóð eftir Þórarinn Eldjárn. Unglingadeildin þakkaði fyrir sig og söng Ókindarkvæði fyrir miðdeild.

Fimmtudaginn 22. nóvember fóru nemendur 1.-4. bekkjar á Gilitrutt, leiksýningu Brúðuleikhússins, á Hellissandi.

Slökkviliðið kom í heimsókn eftir hádegi, spjallaði um brunavarnir við nemendur á yngsta stigi, gaf þeim vasaljós og bauð í ferð á slökkviliðsbílnum. Síðan var æfð rýming við hættuástand og gekk vel.

Eftir skóla þann dag fóru flestir nemendur skólans í heimsókn í Laugargerðisskóla og voru þar fram á kvöld við leiki og spjall. Kærar þakkir Lauggerðingar.

Framundan er jólaföndurdagur foreldrafélagsins en hann verður laugardaginn 1. desember.

© Skóli 2011